Sé mig knúinn til að blogga

Blogg er góð leið til að koma ýmsu á framfæri og hér ætla ég að nota tækifærið og segja ykkur frá því hversu andskoti skítlegir IcelandExpress geta verið.

Þannig er mál með vexti að ég og Hugborg flugum til Köben þann 17. júlí síðastliðinn með þessu ágæta flugfélagi.  Við áttum góðar stundir með Herdísi í Svíþjóð og Danmörku og héldum heim á leið mánudaginn 23. júlí (eða svo héldum við).  Þegar við erum komin útá flugvöll og tékkum okkur inn er okkur tilkynnt að flugið, sem átti að fara í loftið um 22 leytið, myndi ekki fara í loftið fyrr en 05:30 um morguninn.  Við fengum sitthvorn matarmiðann uppá 130 danskar til að kaupa okkur að éta og fórum við inní flugstöð til að kveðja Herdísi en hún átti flug til Osló.  Við ákváðum að vera ekki að kúldrast í óþægilegum bekkjum inní flugstöðinni, enda flugstöðin full af fólki, og ákváðum við því að rölta yfir á Hilton hótelið sem er í göngufæri við Kastrup (keyptum okkur að éta útá annan matarmiðann fyrst).  Þegar á hótelið var komið fengum við fínt herbergi, það ódýrasta sem hægt var að fá á tæpar 15.000 íslenskar, fengum okkur að borða og lögðumst til svefns.  Við vöknuðum svo um nóttina til að tygja okkur af stað útá flugvöll aftur.  Það kom svo auðvitað í ljós að IcelandExpress gat ekki staðist þennan nýja tíma og eftir ágætis bið eftir því að fá hvaða hlið við ættum að fara til, komu upplýsingarnar á skjáinn og við fórum uppí vél (eftir ennþá meiri bið samt).  Þetta endaði með því að við fórum í loftið klukkan 07:00 að dönskum tíma.

Ekki sættum við okkur við að borga tæpar 15.000 kr. fyrir hótelherbergi sem ekki hefði verið þörf á að nota ef ekki hefði verið fyrir seinkun IcelandExpress.  Ég sendi þeim því tölvupóst þar sem ég útskýrði okkar mál og faxaði til þeirra kvittunina frá Hilton hótelinu.  Stuttu seinna héldum við til Spánar (aftur með IcelandExpress) og vorum þar í 2 vikur, ekki kom neitt svar frá flugfélaginu á með an við vorum úti en stuttu eftir að við komum heim þá kemur svar frá starfsmanni sem segir orðrétt:

Sæll Grétar,

Ég var að fara yfir málið þitt og sé ég að kvittunin virðist ekki hafa borist okkur. Er mögulegt að þú gætir faxað hana aftur þannig að hægt sé að klára málið?

Ég faxaði kvittunina aftur og sendi þessum starfsmanni tölvupóst og bað hana um að staðfesta við mig hvort að kvittunin hefði ekki borist.  Ekkert svar kom og ég hringdi 2x, í fyrra skiptið lagði ég fyrir skilaboð til þessa starfsmanns og í seinna skiptið fékk ég að heyra það frá samstarfsmanni að kvittunin hefði skilað sér.  Ég beið því vongóður eftir því að málið yrði klárað eins og sagt var í svari frá starfsmanninum góða.  Eftir smá bið og engin svör enn frá þessum starfsmanni sendi ég póst og spurði hvort ekki væri hægt að klára málið, ég hreinlega sæi ekki ástæðuna fyrir því að þetta ætti að taka svona langan tíma.

Svo kom svarið frá þeim (öðrum starfsmanni):   

Kæri viðskiptavinur

Iceland Express varð fyrir því óhappi 20. júlí síðastliðinn að flugvél félagsins varð fyrir eldingu í flugtaki á Stanstedflugvelli. Sem betur fer var engin hætta á ferðum fyrir farþega, enda flugvélar búnar fullkomnum eldingavarnarbúnaði. En engu að síður var nauðsynlegt að fara yfir vélina, enda aldrei of varlega farið þegar kemur að öryggi farþega um borð. Tók þetta mun lengri tíma en við gerðum ráð fyrir í upphafi. Fyrir vikið urðu töluverðar seinkanir á nokkrum vélum í kjölfarið, þar sem gera þurfti við vélina og yfirfara öll kerfi. Leigðum við inn aðrar vélar m.a. frá USA til að koma áætlunni í rétt lag, en því miður lentum við í nokkrum slæmum seinkunum.

Okkur hjá Iceland Express þykir mjög leitt að hafa valdið farþegum slíkum óþægindum og viljum við hér með biðja þig innilega afsökunar á þeirri röskun sem seinkunin hefur óhjákvæmilega valdið. Við gefum okkur út fyrir að vera mun stundvísari en samkeppnisaðilinn og er þetta því mjög bagalegt.  Við erum þakklát fyrir þá þolinmæði og skilning sem okkur var sýnd undir þeim kringumstæðum sem sköpuðust. Kringumstæðum sem við erum ekki ánægð með og munum vinna að því að gerist aldrei aftur.  

Iceland Express er ekki skaðabótaskylt þegar svona gerist. Við hins vegar viljum að þú eigir góðar minningar um Iceland Express og hafir jákvæða upplifun á félaginu og starfsmönnum þess. Því höfum við ákveðið að greiða þér í sárabætur 8.000 kr. inneign í flug til einhvers hinna fjölmörgu áfangastaða Iceland Express. Inneignin sem gildir fram til 1. júní 2008.

Okkur þykkir þetta leitt og munum gera allt til þess að vinna traust þitt á félaginu aftur, þú ert mikilvægur viðskiptavinur og við erum tilbúinn að berjast til að halda þér áfram hjá Iceland Express. [BRÉFI LÝKUR]

Ég vil benda á það að á heimasíðu IcelandExpress stendur orðrétt:  Ef flugi innan EES, á bilinu 1.500 km til 3.500 km, seinkar um þrjár klukkustundir eða meira, skal flugrekandi bjóða farþegum máltíðir og hressingu, hótelgistingu þegar flugi seinkar yfir nótt, og aðgang að síma, tölvupósti og/eða bréfasíma.

Nokkur atriði:

  1. Flugið átti að fara í loftið í kringum kl. 22 (man ekki nákvæman tíma).
  2. Flugið fór ekki í loftið fyrr en kl. 07:00 morguninn eftir.
  3. Við fengum matarmiða sem við gátum ekki notað um morguninn þegar við vorum aftur komin á flugstöðina vegna þess að dagsetningin á miðanum var 23. júlí en það var kominn 24. júlí (við gátum reyndar notað miðann í flugvélinni eftir að Hugborg sagði flugfreyjunum frá þessu)
  4. Ef mér skjátlast ekki þá má kalla þetta seinkun yfir nótt eins og segir í texta á heimasíðu IcelandExpress.
  5. Þeir segjast hinsvegar ekki vera skaðabótaskyldir þegar svona gerist.  Hvar er örsmáa letrið ?

Ég get ekki að því gert að mér finnst á mér brotið.  Ef einhver er ennþá að slysast inná þetta blogg þá væri gaman að lesa komment varðandi þetta.  Ekki hika við að segja frá þessari sögu þegar ykkur langar, við ætlum aldrei aftur að ferðast með þessu ágæta flugfélagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórmundur Helgason

Þabbaraþabb....

Er þetta ekki eins og með blessuð tryggingafélögin, maður heldur að það sé allt tryggt í bak og fyrir þangað til eitthvað kemur fyrir, þá kemur í ljós þetta "örsmáa letur" og allskonar undantekningar og vitleysa.

Annars hefði ég haldið að flugfélög myndu vita hvaða tíma það tekur að yfirfara flugvél sem hefur orðið fyrir eldingu og gefa sér frekar rýmri en skemmri tíma í það... og sjá þá sóma sinn í því að skjóta skjólshúsi yfir farþegana.

Þórmundur Helgason, 30.8.2007 kl. 09:10

2 identicon

Gott að sjá að þú ert lifandi. Hef lent í svipuðu atviki oftar en einu sinni, reynsla mín er sú að það er nánast vonlaust að fá einhverjar skaðabætur í svona málum. Ef flufélögin eru skaðabótaskyld þá draga þau málin eins lengi og þau geta og láta þig hafa eins mikið fyrir því og hægt er. Kveðja úr borginni, Hallldór V.

Halldór Valur (IP-tala skráð) 7.9.2007 kl. 21:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Grétar

Grétar Magnússon
Grétar Magnússon
Boxið hér er ekki nógu stórt til að segja það sem segja þarf um höfundinn.

Vinir og vandamenn

Aðrir vinir og vandamenn með blogg

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband